þriðjudagur, 1. október 2013

Önnur umferðin!

Hæ allir
Í gær var umferð númer tvö. Ég keppti við strák frá Georgíu sem var mjög góður. Skákin var í tvo og hálfan klukkutíma og þá gafst hann upp því að ég var að ná drottningu uppi í borði og þá var ég með unnið. Ég var með svart og tefldi eitt afbrigði af Sikileyjarvörn. Ég var kominn upp á  borð 9 þá. Núna er ég kominn í 1-14 sæti, og raðast í fjórða sæti af þessum fjórtán, svo að ég er örugglega kominn upp á fjórða borð núna held ég. Í dag er ég líka að tefla við annan strák frá Georgíu, sem er land í austur Evrópu.

Vignir var búinn aðeins á undan mér og náði jafntefli, svo að hann er taplaus, sem er gott. Hilmir vann líka sína skák og svo náði Mikki jafntefli líka. Vonandi gengur þriðja umferð vel hjá íslenska liðinu í dag. Ég er búinn að stúdera með Hjörvari og hinir eru allir að læra núna líka. Ég á eftir að slá skákinni minni frá því í gær inn í tölvuna, en ég geri það eftir hverja umferð til að skoða þær og læra af þeim.

Í gær var geðveik rigning, eldingar líka og allt svaka blautt. Sem betur fer kom ég með regnstakkinn minn og mamma keypti líka risastóra regnhlíf. Núna er aftur komin sól, mamma segir að það sé af því að hún keypti regnhlíf, annars væri örugglega ennþá rigning.

Boris fann sko ekki lykilinn okkar aftur en við fengum einhvern ónýtan aukalykil sem gekk ekki almennilega að hurðinni. Við læstumst inni í herberginu og þurftum að klifra út af  svölunum en svo kom viðgerðarmaður og skipti um lás. Við erum komin með nokkur moskítóbit svo við pössum okkur vel í kvöld. Við spilum gúrku úti á svölum á kvöldin, en Vignir vann í fyrradag og mamma í gær. Ég var í öðru sæti.

Það er erfitt að setja myndir inn hér, en svo er líka inni á facebook sem heitir EM ungmenna Budva - Monte Negro 2013 eða eitthvað svoleiðis

Þar er mynd af mér þegar önnur umferðin er að byrja og fleira dót frá hinum í hópnum. Jæja, ég ætla að skella mér út í sundlaug sem ég hef ekki haft tíma til að prófa ennþá. Það er kominn tími til.

Bless, bless, allir
Óskar

2 ummæli:

  1. Vel gert Óskar ! og gaman að heyra að íslenska liðinu gengur svona vel Ég sé mömmu þína fyrir mér með regnhlífina risastóru og ykkur að krifra út af svölunum. Jiminn þetta er eins og úr bíómynd :-) gangi þér og ykkur vel í dag og bestu kveðjur frá mér og Birgi Loga.

    SvaraEyða
  2. Hæ Óskar, frábært blog hjá þér, alltaf gott að spila smá gúrku, það er góð æfing fyrir skák líka :) Gangi ykkur vel áfram. kveðjur frá pabba og bræðrum þínum.

    SvaraEyða