þriðjudagur, 8. október 2013

Seinustu umferð lokið

Hæ öll,

hér er mynd af mér með stráknum sem ég keppti við í síðustu umferð. Hann er frá Ísrael, og gaf mér gjöf fyrir umferðina. Ég mátaði hann í fimmtíu og sjö leikjum held ég. Hann var ekki mjög sterkur, tefldi þessa Petrovs vörn sem er frekar ömurleg.

Nú er mótinu lokið og við förum til London á morgun. Þá ætla ég í British Museum og McDonalds. Nú sit ég uppi á herbergi hjá Hjörvari sem er að pakka niður í tösku. Nú var Verónika að koma og hún vann!! Hún er snilli. Vignir vann líka, og Felix gerði jafntefli. Mikki er enn að tefla svo við bíðum eftir honum, svo förum við niður á strönd og fáum okkur calamari eða eitthvað að borða. Við fórum líka í hádeginu, það var svo mikið af fólki í matsalnum að maður var næstum troðinn undir. Rússarnir eru alveg ferlegir svo við þurftum bara að fara annað.

Þetta er búið að vera frábært mót, ég hef teflt við stráka frá Ísrael, Georgíu, Austurríki, Þýskalandi, Búlgaríu og Rússlandi. Ég enda með 4,5 vinning af 9 sem er miklu minna en ég ætti að geta fengið því að ég get alveg unnið strákana sem eru á efstu borðunum. Ég fór aðeins út af laginu í þriðju umferð þegar ég var að tefla við strákinn frá Georgíu, þar sem ég gat fyrst unnið og svo náð jafntefli en ég var dálítið gráðugur og tapaði þeirri skák að lokum. Hann endaði í 11 sæti, sá strákur.  Þetta er rosa góð reynsla og þegar maður er búinn að fara á eitt svona mót, þá veit maður betur hvernig maður á að undirbúa sig undir hverja umferð.

Nú var Mikki að koma og hann var með jafntefli, sem er bara fínt.
Bless, bless allir og takk fyrir að lesa bloggið mitt.
Kv.
Óskar

mánudagur, 7. október 2013

Áttunda umferð seinni partinn

Nú er áttunda umferð seinni partinn. Ég er að fara að tefla á móti Rússa, en ég var líka að tefla við Rússa í gær og ég vann hann. Hann var ekki mjög sterkur, ég mátaði í 38 leikjum. Nú er ég að undirbúa mig undir drottningarpeðsopnun, en ég er með svart. Hann gæti reyndar líka notað enska opnun, sem væri bara ágætt, ég verð undirbúinn undir bæði.

Gunni vildi fleiri sögur af Boris. Hann Boris er sko ekkert rosalega klár. Hótelið tók vegabréfin okkar og ætlaði bara að geyma þau, en við föttuðum fljótlega að það væri trúlega ekki góð hugmynd. Ef að þau geta týnt lyklum, þá geta þau týnt vegabréfum. Þannig að Áróra fór að ná í vegabréfið sitt og Boris lét hana hafa vegabréfið hans Stefáns! Þau eru sko ekkert mjög lík, Áróra og Stefán. Svo fór Mikki og Boris sagðist vera búinn að týna vegabréfinu hans, svo að Mikki þurfti bara sjálfur að finna það fyrir Boris.

Nú erum við búin að dreifa kynningarblaði um Reykjavík open í morgun og svo verð ég að undirbúa mig undir næstu umferð. Við fengum 4 vinninga í fyrradag og þá fengum við að henda Hjörvari út í sundlaugina í gær. Svo fengum við fimm vinninga í gær, og þá held ég að við getum hent honum út í sjó. Það verður aldeilis gaman. 

laugardagur, 5. október 2013

Sjötta umferð á eftir!

Á eftir er sjötta umferð að byrja. Ég er að fara að tefla við annan strák frá Austurríki og verð með svart, sem er eiginlega bara betra fyrir mig. Hann hefur ekki unnið neina sterka, svo ég ætti að eiga góða möguleika. Ég fékk kveðju frá bekknum mínum í Ölduselsskóla og bið að heilsa ykkur öllum!!

Þarna erum við Vignir fyrir síðustu umferð. Hann hefur staðið sig geðveikt vel og er í 1-4 sæti í sínum flokki!! Frábært hjá honum :)
Við keppum á öðrum stað en hinir sem eru eldri og mamma bíður fyrir utan húsið allan tímann sem ég er að keppa. Þarna er hún og Stefán, pabbi Vignis.
Bless í bili.
Óskar

Fleiri myndir

Fyrst að ég get núna sett inn myndir, þá eru hér myndir frá því að ég hef verið að byrja umferðirnar í skákinni:
Fyrsta umferð að byrja hjá mér.

Þetta er þriðja umferð, þá var komin rigning og ég bara hress. Ég var ekki eins hress þegar skákin var búin því að ég tapaði og hefði átt að vinna!!
Hér er fimmta umferð að byrja, allir fengu skákbækur gefins. Ég tapaði fyrir þýskum strák sem tefldi gömlu vörnina mína, karo cann. Algjört klúður hjá mér, ég var ekki búinn að undirbúa mig undir karo með hvítu og var búinn að gleyma þessum varíant.



Gamli bærinn

Í gær fórum við líka í labbitúr um gamla bæinn í Budva, sem er mjög fallegur. Hér er líka hægt að fá mjög góðan ítalskan ís alls staðar. Straggiatella er uppáhaldið mitt. Svo fór allur hópurinn saman út að borða í gærkvöldi, og við fórum í mini skemmtigarð og 7D bíó á leiðinni heim.

Frídagur í gær

Í gær var frídagur hjá okkur og ég fór í siglingu með mömmu, Veróniku og Mikka. Það var rosa gaman, hér eru nokrkar myndir:

miðvikudagur, 2. október 2013

Er að fara í umferð 4

Ég tefldi í gær við gaur frá Georgíu og tapaði eftir þrjá og hálfan tíma, í svona 70 leiki. Hann tefldi einhverja hundleiðinlega Petrovs vörn, en ég kom samt ágætlega út eftir opnunina. Það var komið myrkur þegar ég var loksins búinn. Við tefldum báðir ágætlega og ég hefði alveg átt sjens í að vinna, og svo í jafntefli svo ég var smá svekktur, en það er líka fínt að hafa tvo af þremur. Verónika er svo hress og hún sagði að það væri alveg hægt að taka vinning af manni en ekki reynsluna. Hún veit hvað hún syngur, hún Verónika. Nú eru allir farnir að tefla nema ég og Vignir, en við erum að fara uppeftir núna. Ég er að fara að tefla við Þjóðverja og ætla að gera mitt besta!