þriðjudagur, 8. október 2013

Seinustu umferð lokið

Hæ öll,

hér er mynd af mér með stráknum sem ég keppti við í síðustu umferð. Hann er frá Ísrael, og gaf mér gjöf fyrir umferðina. Ég mátaði hann í fimmtíu og sjö leikjum held ég. Hann var ekki mjög sterkur, tefldi þessa Petrovs vörn sem er frekar ömurleg.

Nú er mótinu lokið og við förum til London á morgun. Þá ætla ég í British Museum og McDonalds. Nú sit ég uppi á herbergi hjá Hjörvari sem er að pakka niður í tösku. Nú var Verónika að koma og hún vann!! Hún er snilli. Vignir vann líka, og Felix gerði jafntefli. Mikki er enn að tefla svo við bíðum eftir honum, svo förum við niður á strönd og fáum okkur calamari eða eitthvað að borða. Við fórum líka í hádeginu, það var svo mikið af fólki í matsalnum að maður var næstum troðinn undir. Rússarnir eru alveg ferlegir svo við þurftum bara að fara annað.

Þetta er búið að vera frábært mót, ég hef teflt við stráka frá Ísrael, Georgíu, Austurríki, Þýskalandi, Búlgaríu og Rússlandi. Ég enda með 4,5 vinning af 9 sem er miklu minna en ég ætti að geta fengið því að ég get alveg unnið strákana sem eru á efstu borðunum. Ég fór aðeins út af laginu í þriðju umferð þegar ég var að tefla við strákinn frá Georgíu, þar sem ég gat fyrst unnið og svo náð jafntefli en ég var dálítið gráðugur og tapaði þeirri skák að lokum. Hann endaði í 11 sæti, sá strákur.  Þetta er rosa góð reynsla og þegar maður er búinn að fara á eitt svona mót, þá veit maður betur hvernig maður á að undirbúa sig undir hverja umferð.

Nú var Mikki að koma og hann var með jafntefli, sem er bara fínt.
Bless, bless allir og takk fyrir að lesa bloggið mitt.
Kv.
Óskar

2 ummæli:

  1. Þetta er frábært hjá þér Óskar. Njóttu þess að fara á MacDonalds...

    SvaraEyða
  2. Glæsilegt og gaman að geta fylgst með. Flottur árangur hjá ykkur og flott blogg! :-)

    SvaraEyða