sunnudagur, 29. september 2013

Fyrsta umferðin!!!

Hæ allir,

ég þurfti að vakna klukkan fjögur um nótt af því að ég þurfti að fara í flugvél.  Pabbi keyrði okkur mömmu út á völl þar sem við hittum allt liðið. Ég flaug með Wow air til London. Við þurftum að bíða heillengi á flugvellinum í London. Síðan flaug ég með Easy Jet til Dubrovnik sem er í Króatíu. Þá var komið kvöld. Síðan þurftum við að keyra í rútu í tvo og hálfan tíma til Budva í Svartfjallalandi þar sem mótið er haldið. Á leiðinni fórum við með ferju, klósettin þar voru óóóógeðsleg. Við komum á hótelið okkar klukkan hálf tólf eða eitthvað og keyptum okkur brauð og salami í kvöldmat.

Hótelið er rosa fínt, með sundlaug og öllu, en núna er Boris í afgreiðslunni búinn að týna lyklinum okkar, svo við höfum ekki lykil að herberginu núna. Hann var ekki að skilja að það væri bara nóg að opna herbergið, hélt ekki að við þyrftum sjálf lykil til að læsa því seinna. Aumingja Boris þegar mamma fer aftur að tala við hann á eftir.

Svo fór ég að tefla kl. 4 í dag. Það voru sko frekar margir þarna, sérstaklega frá Tyrklandi, Rússlandi og Georgíu, heilu hóparnir af skákkrökkum. Við sem erum í flokkum undir 8 ára og 10 ára stráka og stelpna, við erum í einhverjum barnaskóla sem er frekar sjúskaður. Allir hinir keppa í íþróttahúsi bæjarins sem er sko alls ekki flott heldur.  Ég drakk fullt af vatni og þurfti að fara að pissa eftir svona klukkutíma. Klósettin á ferjunni voru ógeðsleg, en þessi voru fimm sinnum ógeðslegri. Það var sko bara gat á gólfinu sem maður átti að kúka og pissa í, sem var ógeðslegt. Sem betur fer þurfti ég bara að pissa. Enginn klósettpappír og engin sápa til að þvo sér og gólfið var rennblautt. Ég hef aldrei í lífinu séð svona ógeðslegt klósett!!

Ég var að tefla við strák frá Austurríki sem heitir Marc. Ég var með hvítt og fékk miklu betri stöðu en síðan klúðraði ég og hann var með unnið. Og síðan klúðraði hann! Og ég bara mátaði hann og vann!!! Hann  var sko bara góður en ég kom samt betur út úr opnuninni. Vignir vann líka og Jokko gerði jafntefli, svo ég var mjög ánægður með það. Það voru allir í efri flokkunum að tefla geðveikt langt upp fyrir sig.

Jæja, ég ætla að fara að borða núna. Það er rosalega erfitt að komast á netið, svo að ég get kannski ekki alltaf sett inn á bloggið og ég get heldur ekki sett inn myndir ennþá. Prófa bara aftur seinna.

Kv.Óskar